Upp­gjörið og við­töl: Kefla­vík - Stjarnan 81-76 | Há­spennu­leikur og Kefla­vík komið í úr­slit

Siggeir Ævarsson skrifar
Daniela Wallen fór mikinn í liði Keflavíkur í kvöld. Hún skoraði 16 stig, tók 17 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.
Daniela Wallen fór mikinn í liði Keflavíkur í kvöld. Hún skoraði 16 stig, tók 17 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Vísir/Vilhelm

Keflavík er komið í úrslit Subway-deildar kvenna í körfubolta eftir fimm stiga sigur á Stjörnunni í oddaleik. Deildar- og bikarmeistarar Keflavíkur þurftu heldur betur að hafa fyrir hlutunum gegn nýliðum Stjörnunnar í rimmu sem mun seint gleymast.

Það var augljóslega töluverður skjálfti í liðinum og spennustigið hátt í byrjun en fyrsta karfa leiksins kom ekki fyrr en eftir rúmar þrjár mínútur. Gestirnir byrjuðu leikinn sterkt og komust í 2-8 en Keflavík lét það engan veginn slá sig út af laginu. Liðin héldu áfram að skiptast á höggum en Stjarnan kláraði leikhlutann sterkt og leiddu 20-23.

Keflavík hóf annan leikhluta á 7-0 áhlaupi en Stjarnan svaraði í sömu mynt. Þær tóku síðan alvöru áhlaup og voru allt í einu komnar ellefu stigum yfir og þá fór eflaust um margan Keflvíkinginn. Heimakonur náðu þó að loka leikhlutanum með 5-0 áhlaupi og staðan í hálfleik 41-47.

Keflvíkingar hertu tökin í varnarleiknum í þriðja leikhluta, skiptu yfir í svæðisvörn og héldu Stjörnunni í 13 stigum en þær áttu nokkrar sóknir sem enduðu ansi klaufalega. Allt jafnt fyrir lokaátökin 60-60. Í síðasta fjórðung leiksins reyndust það heimakonur sem voru sterkari en taugarnar voru þandar allt þangað til í lokin. 

Það var loks í blálok leiksins sem Keflavík tókst að hrista Stjörnuna endanlega af sér, vinna fimm stiga sigur og tryggja sér sæti í úrslitum. 

Atvik leiksins

Þegar seinni hálfleikur var rétt nýbyrjaður og Keflvíkingar að hefja áhlaup varð atvik sem leit ekki vel út. Birna Valgerður Benónýsdóttir var í hraðaupphlaupi en skrikaði fótur og virtist meiða sig mjög illa. Hún lá lengi óvíg eftir og var að lokum studd af velli og kom ekki meira við sögu í leiknum.

Við sendum henni batakveðjur og vonum, líkt og Arnar Guðjónsson sagði, að hún verði klár í úrslitaeinvígið.

Stjörnur og skúrkar

Stjarna kvöldsins var Sara Rún Hinriksdóttir sem sýndi í kvöld úr hverju hún er gerð. Hún tók ítrekað af skarið þegar Keflavík vantaði stig og var í jötunham á köflum. 20 stig frá henni og átta fráköst

Þá átti Daniela Wallen einnig mjög góðan leik, bauð upp á tröllatvennu, 16 stig og 17 fráköst, og var einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu.

Hjá Stjörnunni var Dania Dawis-Stewart með enn tröllslegri tröllatvennu, 20 stig og 24 fráköst en voru stundum mislagðar hendur í skotum undir körfunni. Hún hefði eflaust tekið fleiri villum fegins hendi en hún tók aðeins tvö víti þrátt fyrir að vera í miklum barningi í teignum allan leikinn.

Kolbrún María Ármannsdóttir var einnig öflug, skoraði 17 stig og nokkur þeirra á mikilvægum augnablikum.

Það er ekki sanngjarnt að velja skúrk í leik eins og þessum. Gleðin var við völd í kvöld.

Dómarar

Dómarar kvöldsins voru Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson og Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson. Traust tríó það og stóðu sig vel í kvöld.

Stemming og umgjörð

Fullt hús í Blue höllinni í kvöld, „pre-game“ upphitun hjá stuðningsmönnum og allur pakkinn. Rífandi stemming í stúkunni fyrir leik og ljósa- og myndbandasýning með kynningunum. Frábært að sjá svona vel mætt á leikinn, eflaust ríflega 1.000 manns í salnum. Meira svona takk.

Viðtöl

Kolbrún María: „Þetta er eiginlega bara besta lið í heimi!“

Kolbrún María Ármannsdóttir var augljóslega mjög svekkt með úrslit kvöldsins en það var stutt í brosið enda ekki annað hægt eftir svona tímabili sem nýliðar í deildinni.

„Ég er ótrúlega stolt af liðinu. Við börðumst fram á síðustu sekúndu og gáfum allt í þetta. Auðvitað er maður svekktur svona beint eftir leik en ég er bara ótrúlega stolt af þessu liði. Þetta er eiginlega bara besta lið í heimi myndi ég segja!“

Það má í raun draga tímabilið saman með þessum orðum, Stjarnan er lið sem gefst aldrei upp og hættir aldrei, sama hver staðan er.

„Við gefumst aldrei upp. Það eru orð sem lýsa okkur. Við gefumst aldrei upp og höldum áfram sama hvort við séum 40 stigum undir eða 20 stigum yfir. Við bara höldum áfram og gefum okkar allar í þetta og gefumst aldrei upp.“

Leikurinn í kvöld leit ágætlega út fyrir Stjörnuna í fyrri hálfleik en seinni var töluvert bras sóknarlega eftir að Keflavík skipti yfir í svæðisvörn.

„Þær byrjuðu að spila svæði á okkur og það kom smá á óvart. En mér fannst við samt spila vel í gegnum þetta. Keflavík er með svakalega gott lið. Vonandi bara fara þær og gera sitt besta í úrslitunum. En ég er ótrúlega stolt af okkur, við erum alls ekki hættar. Við erum bara rétt að byrja.“

Talandi um að vera alls ekki hættar, hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir þetta lið? Verður sami kjarni áfram í Stjörnunni?

„Eitthvað af okkur. Ég og Ísold eigum til dæmis tvö ár eftir af samningnum okkar. Svo erum við að fá nýjan þjálfara inn í þetta sem er mjög spennandi. Þannig að það eru heldur betur spennandi tímar framundan í Garðabænum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira